Aldrei fleiri umsóknir um jólaaðstoð

Mynd: Herdís Helgadóttir
Mynd: Herdís Helgadóttir

Dagana 12.-15. desember sl. fór jólaúthlutun Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis fram í húsnæði Hjálpræðishersins á Akureyri, Hrísalundi 1a. Þetta árið bárust 474 umsóknir um jólaaðstoð, frá einstaklingum og fjölskyldum á starfssvæði sjóðsins.

Sjóðurinn úthlutaði inneignarkortum í matvöruverslanir fyrir rúmlega 15 og hálfa milljón króna fyrir þessi jólin. Auk þess fengu umsækjendur matvörur, inneignarkort í nytjaverslanir og jólagjafir fyrir börn. Sjóðurinn úthlutaði inneignarkortum í Hertex fyrir 2 milljónir króna og inneignarkort í verslun Rauða krossins fyrir 2,6 milljónir króna.

Takk fyrir stuðninginn

Stjórn Velferðarsjóðs á Eyjafjarðarsvæðinu vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem lögðu starfinu lið. Þar ber sérstaklega að nefna þá fjölmörgu sjálfboðaliða sem tóku þátt í jólaaðstoðinni, án ykkar hefði þetta ekki verið mögulegt!

Umsóknum um aðstoð fjölgaði á milli ára og hafa þær aldrei verið fleiri. Fyrir jólin 2021 voru umsóknir 433 og fjölgunin á milli ára er því 9,5%. Þrátt fyrir þessa fjölgun umsókna var mögulegt að aðstoða fólk með veglegum hætti, þökk sé rausnarlegum styrkjum frá samtökum, fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu. Við viljum koma á framfæri innilegu þakklæti til allra velunnara sjóðsins. Án þessa mikla velvilja í samfélaginu væri ekki hægt að styrkja efnaminni heimili á svæðinu með þeim hætti sem nú er gert. Ykkar stuðningur er ómetanlegur.

Úthlutun allt árið

Úthlutun úr Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðis fer fram allan ársins hring. Úthlutanir fara fram í Glerárkirkju og fulltrúar Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis halda utan um úthlutanirnar. Fyrsta úthlutun ársins var 18. janúar þar sem 40 heimili fengu stuðning í formi inneignarkorta í matvöruverslun. Nánari upplýsingar um úthlutanir má finna hér á heimasíðunni.