Höldur-Bílaleiga Akureyrar styður sjóðinn vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og unglinga

Á myndinni, sem tekin var eftir undirritun samningsins, má sjá frá vinstri Sigríði Stefánsdóttur og …
Á myndinni, sem tekin var eftir undirritun samningsins, má sjá frá vinstri Sigríði Stefánsdóttur og Herdísi Helgadóttur frá Velferðarsjóði Eyjafjarðar, Örnu Hrönn Skúladóttur, markaðsstjóra Hölds og Steingrím Birgisson, forstjóra Hölds.

Nú er í farvatninu nýtt úrræði innan Velferðarsjóðsins en það snýr að stuðningi vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og ungmenna frá efnaminni heimilum. Gerður hefur verið þriggja ára samningur við Höld-Bílaleigu Akureyrar. 

Markmið verkefnisins er að draga úr hættu á félagslegri einangrun og að börn og unglingar hætti í íþrótta- og tómstundastarfi vegna fjárhagserfiðleika heimilis. Hægt verður að sækja um sérstakan styrk hjá Velferðarsjóðnum vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og unglinga.

Sem dæmi um styrkhæf verkefni má nefna ferðalög vegna þátttöku í íþróttum, tómstundum og menningarstarfi, æfinga- eða skólagjöld vegna tómstundastarfs, keppnir og ferðir á vegum félagsmiðstöðva og klúbba auk búnaðar- og búningakaupa.

Nánari upplýsingar má nálgast í viðtölum hjá fulltrúum sjóðsins og á væntanlegu rafrænu umsóknareyðublaði.