Söfnun fyrir jólaaðstoð fer brátt af stað

Haustið hefur verið með fallegasta móti hér fyrir norðan en gular viðvaranir minna okkur nú á að það styttist í veturinn. Jólin nálgast og vonandi vekur sú tilhugsun upp gleði og tilhlökkun hjá sem flestum. Við vitum þó að jólin geta valdið mörgum áhyggjum af ýmsum ástæðum. Fjárhagslegir erfiðleikar geta gert fólki erfitt að halda gleðileg jól og þess vegna viljum við minna á söfnun fyrir jólaaðstoð Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. 

Sjóðurinn aðstoðar efnaminni einstaklinga og fjölskyldur bæði fyrir jólin og á öðrum tíma árs en reynslan sýnir að eftirspurnin eftir aðstoð er mest í aðdraganda jólanna. Samtals fengu 474 heimili og einstaklingar jólaaðstoð árið 2022 og var það mikil fjölgun umsókna milli ára. Búast má við því að enn fleiri umsóknir berist fyrir jólin þetta árið, en í reglubundnum úthlutum sjóðsins árið 2023 höfum við séð að þörfin fyrir og eftirspurn eftir aðstoð hefur stóraukist. Mörg heimili á Eyjafjarðarsvæðinu eru illa stödd fjárhagslega og þurfa á aðstoð að halda.

Á næstu vikum verður haft samband við fyrirtæki og samtök á svæðinu með ósk um stuðning. Einnig verða kynntar fleiri leiðir til að styrkja starfsemi sjóðsins. Stjórn Velferðarsjóðs á Eyjafjarðarsvæðinu vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem leggja starfinu lið. Án þessa mikla velvilja í samfélaginu væri ekki hægt að styrkja efnaminni heimili á svæðinu með þeim hætti sem nú er gert. Ykkar stuðningur er ómetanlegur.

Þeim sem vilja styrkja jólaaðstoð Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis er bent á eftirfarandi söfnunarreikning:

Kt. 651121-0780
Rn. 0302-26-003533